.

Friday, October 18, 2013

Bananalummur og skólahlaup

Í gær fengum við Davíð eina af okkar uppáhalds manneskjum í heiminum í eftir-skólasnarl á Hringbrautina. Hún heitir Jóhanna Steina og er 12 ára. Ég hef verið mjög slöpp og þreytt að undanförnu en það hressti mig mjög að fá hana í heimsókn, sérstaklega þar sem að við Jóhanna skokk-löbbuðum fyrst Ægissíðuna með skólahlaupi Vesturbæjarskóla og gerðum svo hollustulummur. 

Jóhanna Steina var mjög dugleg að hlaupa í fallega umhverfinu við hlaupabrautina á Ægissíðunni.
Þegar ég komst að því að ég er með glútenóþol þá voru amerískar pönnukökur eitt af því erfiðasta að gefa upp á bátinn. En eitt af því skemmtilegasta við þetta glútenóþol er að uppgötva að það er hægt að baka og elda nánast allt, bara með hollari innihaldsefnum. Nú er ég komin með tvær uppskriftir að litlum lummum og þær eru báðar ljúffengar. 

Uppskrift að þeim sem við gerðum í gær rakst ég á á netinu fyrir nokkrum vikum en þegar ég fór að leita að uppskriftinni í gær fann ég hana hvergi svo við urðum að búa til okkar eigin.

Hér má sjá hvernig þetta leit út hjá mér
Uppskriftin sem við gerðum er gríðarlega einföld. Við gerðum hana sérstaklega stóra þar sem vorum þrjú að borða en ég myndi segja að það sé alltaf eitt egg á hvern banana.

4 bananar, stappaðir
4 egg
2 tsk kanill
1 tsk vanilludropar
3 msk glútenlausir hafrar

Þessu er öllu blandað saman, ég hrærði með gaffli, finnst það þægilegast þar sem að það er óþarfi að setja þetta í blandara. Síðan er þessu skellt á miðlungsheita pönnu.

Hver og einn stjórnar hvað hann setur mikið af kanil og vanilludropum en mér finnst þetta frekar sæt uppskrift þannig að það er óþarfi að setja of mikið af því.



Þetta er svo ljúffengt og hægt að borða þetta með osti og smjöri eða skella smá agavesýrópi ef maður vill fá lúxus. Ég setti fullt af kókosflögum á mína lummu, það var alveg einstaklega gott. Það er bara ekkert erfitt að vera með glútenóþol þegar maður getur leyft sér svona afburðalúxus á fimmtudögum.


Uppskriftin gaf af sér 12 meðalstórar lummur

 Þessi tvö eru miklir vinir og voru mjög ánægð með það að lyfta sér upp á fimmtudegi með kósístund á Hringbrautinni.



Thursday, October 17, 2013

Lítill skápur í nýjan búning

Þessi litli skápur hefur fylgt mér frá því að ég var fjögurra ára og bjó á Kapló (Kaplaskjólsvegi). Hann var alltaf skjannahvítur, fallegur og glansandi. Í hann raðaði ég öllum styttunum mínum, en ég var 
 öflugur styttusafnari um tíma.  Fyrir ca 5 árum síðan þá lágu leiðir okkar í sitthvora áttina og hann dvaldi í leiguhúsnæði um tíma. Þegar ég fékk hann aftur var búið að sletta svona ofboðslega ljótri brúnni málningu á hann og ég varð pínu fúl. En ég var ekki fúl lengi, enda ekki minn vani, og við mamma ákváðum að gefa honum yfirhalningu þar sem að ég er nú farin að búa og ekki slæmt að fá gamla skápinn aftur í búslóðina. Þetta er smá sérstakt en ég er mjög ánægð með útkomuna! 


Fyrir                                     Eftir

Sunday, October 06, 2013

Áfengi er eitur en jógatímar snilld

Dagurinn hófst á fitumælingu. Þvílík gleði! Ég komst að því að ég er í þokkalegu formi en þarf að styrkja mig talsvert. Þá er bara að byrja að lyfta og gera styrktaræfingar. Jógatímar eru líka mögulega það besta fyrir kvíðasjúkling eins og mig. Þegar dásamlegi jógakennarinn í Háskólaræktinni segir: „Skildu öll hugðarefni dagsins og það sem hefur valdið þér áhyggjum að undanförnu eftir fyrir utan salinn“ þá ímynda ég mér að ég setji allt þetta litla sem hefur truflað mig í kassa og læsi það með
Svona verð ég áður en langt um líður. Vittu til!
fötunum mínum inni í skáp. Jóga! Það er markmið næstu viku. Mæta í jógatíma.

Nú frá og með morgundeginum stefni ég á að skrifa niður það sem ég borða og hvenær ég borða það. Það er leiðinlegt en vonandi uppgötva ég eitthvað sem að ég hafði ekki áttað mig á áður. Einhver óhollusta sem má taka út eða einhver hollusta sem mætti bæta inn. (Ég hef sterkan grun um að ég neyti of mikið af kókómjólk, þetta getur ekki talist hollt.)

Annars er ég alveg dauð á því eftir skemmtanalíf helgarinnar. Það er of mikið álag á eina litla konu að byrja að drekka í vísindaferð klukkan 5 og vera í bænum til lokunar. Áfengi er eitur!


Thursday, October 03, 2013

Reykjandi api með hatt og gleraugu

Það er þriðji í Meistaramánuði. Ég á mjög erfitt með þetta concept. Auðvitað er frábært að hinir ýmsu einstaklingar taki sig til og reyni að standa sig betur í lífinu, hvort sem það snýst um að mæta í  ræktina, borða hollt og að fara fyrr að sofa eða hreinlega að borða meira af bernaise sósu. (Mér skilst að aðstoðarmaður hæstvirts forsætisráðherra hafi það markmið. Las það (jafnvel skrifaði) aftan á Fréttablaðinu.) En þetta er allt svo extreme! Ég hef heyrt ófáa segja: „Sjitt, meistaramánuðurinn hefst á morgun. Ég ætla að fá mér börger og detta í það á meðan ég get." Daginn eftir tekur við meinlætalifnaður, allir voða miklir meistarar, en 1. nóvember detta menn aldeilis í sukkið. „Ég meina maður var að klára meistarmánuð. Nú skal fagna!“ Ég er meira á því að lífstílsbreytingar eigi að vera fyrir lífið ekki mánuðinn. En svona til þess að sýna það hversu tvískiptur persónuleiki ég er, þá eru hér skráningarupplýsingarnar sem ég fékk þegar ég skráði mig í þennan merka mánuð:

 
Já, ég er skráð. 

Markmiðin mín voru ósköp einföld: 

1) Borða hollt. 
       Ég sneiði nú þegar hjá öllu glúteni. Eða að mestu allavega. Það hefur breytt lífi mínu enda fer maginn í keng og ég gubba ef ég innbyrði glúten. Ég finn bara hvað ég er öll orkumeiri og hamingjusamari að öllu leyti. Glútensniðganga mín hófst í mars 2012 og síðan þá hef ég misst 15 kg. Það var mikið gleðiefni! 

2) Mæta í ræktina fyrir skóla.
       Ég á að mæta í skólann 8.20. Þetta þýðir því að ég þarf að vakna um sexleytið á morgnana. Það er snemmt en mér finnst ég hreinlega ekki hafa tíma á öðrum stundum sólarhringsins! Númer 3 er bein afleiðing, eða réttara sagt, forsenda fyrir númer 2.

3) Fara fyrr að sofa.
       Ef ég ætla raunverulega að vakna um sexleytið á morgnana þá verð ég að fara fyrr að sofa. Það er bara þannig. Það gengur ekkert annað upp! Því set ég mér það markmið að vera komin upp í rúm klukkan 22.00, ljósin slökkt ekki seinna en 23.00. Engin raftæki með upp í rúm. 

Og svo framvegis og framvegis.

Málið er bara það að lífið gerist! Síðastliðna 7 daga hef ég unnið 6 kvöldvaktir sem þýðir að ég er ekki búin fyrr en á miðnætti. Það gerir mér ókleift að uppfylla númer 3 sem er, eins og fyrr segir, forsendan fyrir númer 2! Þar með féll mín valta spilaborg áður en fyrsti dagur Meistarmánaðarins leið. En jæja jæja, vinnan göfgar andann eða manninn og allt það. 
Góðu fréttirnar eru að þrátt fyrir að það sé brjálað að gera hjá mér þá er kvíðinn á undanhaldi. Ég þakka það að þessu sinni þessari reglu: 

Ef verkefnið tekur minna en 5 mínútur, kláraðu það strax. 

Svo einfalt. Og gerlegt! En breytir algjörlega lífinu og afkastagetu manns. Til dæmis ef þú þarft að senda e-mail, svara sms-i, vaska upp, hengja upp úr vélinni og svo mætti lengi telja kláraðu það bara! Þá þarf ekki að hafa áhyggjur af því lengur. 

Jæja, ég kveð að sinni. Mér fannst þetta blogg aðeins of myndlaust og textaþungt þannig að ég læt fylgja með mynd af reykjandi apa með hatt og gleraugu. Njótið vel.


Eitt enn! Enduruppgötvaði Katie Melua á meðan ég kvöldstússaði. Sú hefur töfrandi og ómþýða rödd. Ljúft ljúft ljúft.